Félags- og tilfinningafærni íslenskra nemenda samkvæmt PISA 2022

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/tuuom.2025.34.5

Lykilorð:

PISA 2022, félags- og tilfinningafærni, ungmenni, námsárangur, persónueiginleikar

Útdráttur

Í PISA-könnuninni 2022 var í fyrsta sinn lögð fyrir heildstæð mæling á félags- og tilfinningafærni nemenda en könnunin beindi sjónum að sjö persónueiginleikum: þrautseigju, streituþoli, skörungsskap, tilfinningastjórnun, forvitni, samkennd og samvinnu. Í rannsókninni var leitað eftir mati 15 ára ungmenna á Íslandi á ýmsum félags- og tilfinningafærniþáttum, hvort fram kæmi kynjamunur og hvort finna mætti tengsl slíkrar færni við námsárangur í stærðfræði, lestri og náttúruvísindum. Niðurstöður sýndu að íslenskir nemendur mældust yfir meðaltali OECD-landanna í þrautseigju, streituþoli, tilfinningastjórnun og skörungsskap en undir meðaltali í forvitni, samkennd og samvinnu. Kynjamunur kom helst fram í streituþoli og tilfinningastjórnun sem var nokkuð meira hjá drengjum og samkennd sem var nokkuð meiri hjá stúlkum. Í ljós komu jákvæð en fremur veik tengsl félags- og tilfinningafærni nemendanna, einkum þrautseigju og forvitni, við námsárangur í stærðfræði, lestri og náttúruvísindum. Tengslin voru meiri hér á landi en í hinum OECD-löndunum.

Um höfund (biographies)

  • Ragný Þóra Guðjohnsen, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Ragný Þóra Guðjohnsen (ragny@hi.is) er dósent í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið (MVS) HÍ. Hún lauk doktorsprófi í menntunarfræðum (2016), MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði (2009) og embættisprófi í lögfræði (1992), öllu frá HÍ. Hún lauk einnig viðbótardiplómu í kennslufræði háskóla frá HÍ (2019). Rannsóknir hennar snúa einkum að áhættuhegðun og velferð barna og ungmenna, borgaravitund og borgaralegri þátttöku ungmenna og kennslufræðum háskóla.

  • Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Kolbrún Þ. Pálsdóttir (kolbrunp@hi.is) er dósent og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk PhD-gráðu í menntunarfræðum árið 2012, MA-gráðu í menntunarfræðum 2001 og BA-prófi í heimspeki 1997, öllu frá Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur Kolbrún beint sjónum að ferðalagi ungmenna milli ólíkra námsumhverfa, formlegra og óformlegra, og lærdómi þeirra innan og utan skóla. Meðal rannsóknarsviða hennar eru fagþróun frístundaheimila, formleg og óformleg menntun, menntastefna, fagmennska og samstarf í skóla- og frístundastarfi.

  • Unnur Guðnadóttir, Mennta- og barnamálaráðuneytið

    Unnur Guðnadóttir (unnur.gudnadottir@mrn.is) er sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Hún lauk doktorsprófi í lýðheilsuvísindum frá University of Wisconsin í Madison (2018), MS-gráðu í félagssálfræði (2011) og BS-gráðu í sálfræði (2009) frá Háskóla Íslands. Unnur hefur komið að rannsóknum á ýmsum sviðum innan sálfræði og lýðheilsuvísinda. Helsta áherslusvið Unnar í dag er heilsa og velferð barna og ungmenna.

Niðurhal

Útgefið

2025-06-25

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)