Upplýsingar fyrir bókasafnsfræðinga

Birting greina ræðst annars vegar af fræðilegum efnistökum og gildi rannsókna og hins vegar þeirri spurningu hvort greinar eigi erindi til þeirra sem sinna eða hafa áhuga á uppeldis- og menntamálum.

Ákvörðun ritstjórnar um birtingu ritrýndra greina byggist á faglegri umsögn minnst tveggja sérfróðra ritrýna og viðbrögðum höfunda við ábendingum og athugasemdum. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýni og þess gætt að annar eða báðir ritrýnar hafi doktorspróf. Ennfremur er leitast við að tryggja að ritrýnar hafi ólíka sýn á viðfangsefnið.

Umsagnir ritrýna um greinar eru sendar höfundum og fylgir jafnan ákvörðun um birtingu eða synjun. Greinar geta verið samþykktar með fyrirvara um að brugðist sé við faglegum ábendingum. Greinarhöfundar senda þá greinina inn aftur með breytingum og gera í fylgibréfi grein fyrir viðbrögðum sínum við umsögnum ritrýna. Grein er þá aftur lesin yfir og oft sendar nýjar ábendingar eða fyrri athugasemdir ítrekaðar áður en greinin hlýtur endanlegt samþykki. Greinum sem ekki standast kröfur um framsetningu og efnistök er hafnað.

Meginregla er að greinar hafi ekki birst annars staðar. Þó má birta þýðingar á áður birtum greinum ef getið er um fyrri birtingu á óyggjandi hátt. Höfundum ber að geta þess ef greinin er byggð á prófritgerð höfunda, ef byggt er á samvinnu við aðra eða ef vinnan við verkefnið hefur hlotið styrki. Fyrsti höfundur greinar er talinn aðalhöfundur og ber ábyrgð á samskiptum við ritstjóra og væntanlega lesendur.

Ritrýndar greinar eru flokkaðar sérstaklega í yfirlitum Netlu og auðkenndar á eftirfarandi hátt: Ritrýnd grein birt [dagsetning]. Aðrar greinar eru að jafnaði rýndar af einum ritrýni en lúta að öðru leyti sömu ritstjórn og ritrýndar greinar. Þær falla í flokk ritstýrðra greina í yfirlitum Netlu og eru auðkenndar á eftirfarandi hátt: Grein birt [dagsetning].

Nánari upplýsingar um framsetningu greina fyrir ritrýni er að finna hér - senda inn efni