Um tímaritið
Í Netlu – Veftímariti um uppeldi og menntun eru birtar fræðilegar ritrýndar greinar á íslensku og ensku en einnig ritstýrðar frásagnir af þróunarstarfi, umræðugreinar, hugleiðingar, pistlar, viðtöl, ritfregnir og ritdómar um uppeldis- og menntamál. Þegar við á er leitast við að nýta kosti vefsins sem miðils og höfundar hafa í nokkrum tilvikum birt efni með hljóðdæmum og lifandi myndum. Sérrit hafa ýmist verið þemabundin eða tengd ráðstefnum um menntavísindi og birt ritrýnt efni og greinar af fræðilegum toga.
Mest efni í tímaritinu er á íslensku en ritrýndum greinum fylgja útdrættir á ensku og hvatt er til birtingar greina á ensku. Birting greina á öðrum tungumálum getur komið til álita. Öllum innan lands og utan er heimilt að senda efni í ritið og allt efni tengt uppeldi og menntun er tekið til athugunar hjá ritstjórn hvort sem byggt er á rannsóknum og fræðastarfi eða innsýn og reynslu.
Ritnefnd skipa akademískir starfsmenn á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og eru ráðgefandi fyrir ritstjóra tímaritsins. Sérrit Netlu og ráðstefnurit hafa að jafnaði lotið sérstakri ritstjórn á vegum Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands í samráði og samvinnu við ritstjórn Netlu.
Ekki er um fastan útgáfutíma að ræða í Netlu – Veftímariti um uppeldi og menntun heldur birtist efni um leið og það er tilbúið. Hægt er að skrá sig á póstlista og fá öðru hverju sendar tilkynningar um nýtt efni. Þeir sem hafa áhuga á að koma efni á framfæri í ritinu geta snúið sér til ritstjóra. Athugið að ekki er tekið við innsendum greinum í desember. Ritstjórnir ráðstefnurita og sérrita Netlu kalla sérstaklega eftir efni í þau.
Allar greinar allt frá stofnun ritsins 2002 ásamt ráðstefnu- og sérritum frá 2009 má finna á vefsetri Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun á slóðinni https://netla.hi.is. Allar ábendingar um útgáfuna eru vel þegnar.
Ritrýni
Netla er ritrýnt tímarit. Ákvörðun ritstjórnar um birtingu ritrýndra greina byggist á faglegri umsögn minnst tveggja sérfróðra ritrýna og viðbrögðum höfunda við ábendingum og athugasemdum. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýni og þess gætt að annar eða báðir ritrýnar hafi doktorspróf. Ennfremur er leitast við að tryggja að ritrýnar hafi ólíka sýn á viðfangsefnið.
Opinn aðgangur
Veftímaritið er í opnum aðgangi samkvæmt leyfi CC by 4.0 og notendum og stofnunum er frjálst að deila, afrita og dreifa efninu á hvaða miðli eða snið sem er í hvaða tilgangi sem er, jafnvel í viðskiptalegum tilgangi. Notendum er heimilt að lesa, hlaða upp, afrita, dreifa, prenta, leita í og tengja við fullan texta greina án fyrirfram fenginnar heimildar útgefenda eða höfunda svo lengi sem vísað er til heimildar. Höfundar halda dreifingarétti á greinum sínum
Saga tímaritsins
Veftímaritið Netla er um uppeldi og menntun, útgáfan spratt af starfi áhugahóps um útgáfu vefrits við Kennaraháskóla Íslands við upphaf nýrrar aldar. Stofndagurinn 9. janúar 2002 var valinn með hliðsjón af sextugsafmæli Ólafs Proppé rektors Kennaraháskóla Íslands. Hann birti á sínum tíma stutt ávarp í tilefni af opnun tímaritsins.
Fimm manna ritstjórn stýrði ritinu fyrstu árin eins og sjá má í yfirliti um ritstjórn allt frá stofnun. Þann 28. mars 2006 var undirritaður samstarfssamningur Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands, Kennarasamband Íslands og Þroskaþjálfafélag Íslands um útgáfuna og einn ritstjórnarmanna tók að sér hlutverk ritstjóra og leiddi hópinn næstu sex ár. Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð að baki útgáfunni eftir samruna Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands og í ársbyrjun 2012 var haldið upp á tíu ára afmæli ritsins með veglegum hætti. Við þau tímamót var ritið fært í nýjan búning og laut næstu fjögur árin ritstjórn þriggja ritstjóra auk annarra ritstjórnarmanna. Einn ritstjóranna annaðist greinar og annað efni á ensku en hinir tveir, allt íslenskt efni, samskipti og útgáfu á vef.
Frá árinu 2016 fara einn eða tveir ritstjórar með ritstjórn Netlu hverju sinni. Ritstjórar njóta stuðnings ritnefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.